Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fjölskyldan í fyrirrúmi
Fimmtudagur 24. febrúar 2022 kl. 10:08

Fjölskyldan í fyrirrúmi

Sem foreldrar og sem fjölskylda höfum við miklar skoðanir á því hvernig góður bær á að vera með tilliti til öryggis og velferðar þegar kemur að þessum hornsteini samfélagsins. Við hjónin eigum fjögur börn og höfum töluverða reynslu á flestum sviðum þegar kemur að kerfinu í okkar bæ.

Við viljum eiga hlýtt og notalegt heimili í góðu hverfi þar sem börnunum okkar líður vel. Þar sem við teljum okkur vera örugg og getum heilsað nágrönnum okkar með bros á vör. Góðar samgöngur þurfa að vera til fyrirmyndar svo við komumst óhult til og frá vinnu og í helstu þjónustur sem fjölskyldur þurfa að nota. Og ekki má gleyma að börnin okkar þurfa að komast heil á húfi í skóla og í íþrótta- og tómstundastarf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það sem einkennir góðan bæ fyrir fjölskyldur er meðal annars gott skólakerfi. Leikskólinn okkar er fyrsta skólastigið. Þar fer fram mikilvægt nám ungra barna sem bera þarf virðingu fyrir. Við þurfum að huga vel að námi þeirra og það gerum við með góðu starfsfólki og kennurum sem hafa menntað sig til að standa vörð um velferð þeirra og nám. Einnig er mikilvægt að leikskólinn okkar sé í stakk búinn til að taka á móti öllum börnum frá tólf mánaða aldri.

Grunnskólinn okkar er næsta skólastig og sama gildir þar. Þeir eiga að geta sinnt öllum nemendum, geta gefið hverjum nemanda tíma og hugað að velferð þeirra í samstarfi við foreldra og eflt læsi þeirra í víðasta skilningi. Huga þarf vel að fjölda innan hvers bekkjar, fjölga bekkjum, stækka og betrumbæta innviði skólans og láta þjónustuna vaxa með bæjarfélaginu.

Á báðum skólastigum þarf að huga að starfsumhverfi kennara og nemenda svo um munar. Það þarf að samræma umhverfið þannig að bæði skólastigin heilla því í okkar skólaumhverfi höfum við kennara sem brenna fyrir námi barnanna og eru framsækin í sínu starfsumhverfi.

Miklu fleiri úrræði þarf fyrir börnin okkar sem eru með sérþarfir. Öspin, Eikin og Björgin eru bjargir innan skólans sem taka á móti þessum börnum en þessar bjargir þurfa að vera fleiri til að anna öllum þeim börnum sem bíða eftir úrræði en við teljum að jafnvel ætti að vera ein slík stofnun í hverjum skóla bæjarins.

Búsetuúrræði fyrir börn og fullorðna með sérþarfir eftir grunnskóla þarf heldur betur að stokka upp og bæta. Við þurfum að hugsa þá aðstoð upp á nýtt sem við höfum verið að veita þeim sem ekki geta bjargað sér sjálf á vinnumarkaðnum. Forvarnir og snemmtæk inngrip eru miklu betri en „eftir á reddingar“. Við verðum að hjálpa fólki til sjálfshjálpar.

Margsannað er að hverskonar íþróttir, tómstundir eða menningarstarfsemi eru besta forvörnin. Þar viljum við sjá fjölbreytni. Sum börn finna sig ekki í hópíþróttum en geta svo orðið meistarar í einstaklingsíþrótt. Það þarf ekki lýðheilsufræðinga til að segja okkur að hreyfing og þátttaka skapar vellíðan og hamingju. En við erum ólík og allir þurfa að finna sinn stað.

Við verðum að fara að gera stór plön í uppbyggingu íþróttamannvirkja í þessu fjórða stærsta sveitarfélagi landsins. Vissulega höfum við séð margt til bóta en betur má ef duga skal.

Amma og afi, langamma og langafi skipta sköpum eins og gefur að skilja í öllu þessu og við verðum að bera miklu meiri virðingu fyrir okkar heldra fólki. Við þurfum að hugsa heimahjúkrun aftur. Eldra fólk á að geta verið heima hjá sér eins lengi og það vill. Þetta reynslumikla fólk sem hefur lagt grunninn að okkar velferð á fá að vinna eins lengi og það vill og hefur krafta til án þess að því sé refsað fyrir af kerfinu.

Svo er það heilbrigðiskerfið. Það er morgunljóst að þar þarf að taka til hendinni. Það gengur ekki að fólk þurfi að flytja viðskipti sín til höfuðborgarinnar í stórum stíl. Það er óboðlegt!

Við viljum búa í öruggu samfélagi sem virkar og við getum verið hreykin af. Við viljum vera stolt af okkar bæjarfélagi. Við viljum hafa fjölskylduna í fyrirrúmi.

Arnbjörg Elsa Hannesdóttir og Guðbergur Reynisson.